top of page
watercolor-splash_edited.png
watercolor-splash.png

Er einhver reglubók yfir höfuð?

Updated: Aug 24, 2022

Hver ert þú í dag, en á morgun? Flest okkar halda fast í hver við erum og það sem við stöndum fyrir. Í einhverjum tilfellum jafnvel merki um staðfestu og áreiðanleika. Við veljum líka oft sömu veitingastaðina, rútínuna í ræktinni, hjólahringinn, ferðumst til sama landsins og hugsanlega veljum sama hótel og síðast. Við hressum kannski upp á þetta og förum nýjan hring á hjólinu en í raun höldum við almennt fast í okkar venjur. Eins og við séum hálfpartinn forrituð af „þetta hefur alltaf verið gert svona“. 


VIÐ ERUM EKKERT NEMA VANINN

Þá hugsar kannski einhver: af hverju ætti ég að breyta einhverju sem virkar vel fyrir mig? Gott og gilt. Ég er ekki að leggja til að allir hlaupi nýjan hring á hverjum degi eða fari aldrei aftur til Tene, alls ekki. Heldur velti fyrir mér hvernig þessi tilhneiging til að velja það sem við þekkjum speglast í öðru þáttum. Eins og hugmyndum um lífið, þá sérstaklega hver við erum og hvernig við staðsetjum okkur sjálf í því. Þessi ráðandi hegðun vaninn, meðvitaður eða ekki, endurspeglar svo vel hversu viljug við erum til að læra nýja hluti. Hugsa okkur upp á nýtt. Endurskilgreina okkur og sjá ný tækifæri sem bíða okkar handan við hornið.

 

AF HVERJU ER MANNSKEPNAN SVONA TREG AÐ PRÓFA NÝJA HLUTI, TAKA UPP NÝJAR VENJUR?

Ég velti því fyrir mér hvers vegna við höldum oft svo lengi í hátterni og viðhorf sem fara jafnvel ekki saman við þann innri mann sem við viljum vera. Jafnvel þó eitthvað brenni innra með okkur og kannski lengi langað til að kanna. Að breyta um skoðun þýðir ekki að maður gefi einhvern afslátt af sjálfum sér. Jafnvel þó þú kunnir þessa möntru utan að. Þessi innri ótti við að taka skrefið og fara gegn því sem við höfum tamið okkur í langan tíma er kannski eins og að velja alltaf sama hlaupahringinn.


Til að brjótast úr viðjum vanans þarf nefnilega að taka upplýsta ákvörðun, meðvitað velja nýja leið. Vaninn er nefnilega eins gamall kækur sem maður lætur ekki af eða gerir sér ekki grein fyrir sjálfur. 

Oftast þarf eitthvað veigamikið að gerast til að innri endurskoðun eigi sér stað, til þess að við breytum okkar venjum. Skilnaður og atvinnumissir er dæmigert um slíkt. Án þess að gera lítið úr slíkum áföllum þá má reikna með að „ástandið“ í heiminum í dag verði til þess að margir neyðast til að fara í slíka endurskoðun. Staldra við og líta inn á við. Endurskipuleggja lífsins ferðalag.


Vissulega er það krefjandi verkefni að þurfa óvænt að hugsa út fyrir boxið og sækja á ný mið. Og það getur verið ógnvekjandi að fara út fyrir þægindarammann og að skila gömlum viðhorfum. En einmitt þar liggur tækifærið. Hvort sem þú neyðist til að endurskilgreina þig eða mómentið er akkurat núna. Þá er svo mikilvægt að muna að við erum forrituð til að vera hrædd við það sem við þekkjum ekki. Það óvænta. 


Málið er að það segir hvergi í reglubókinni að þú megir ekki endurskilgreina sjálfan þig. Láta af gömlum hugmyndum og gildum, og jafnvel taka upp eitthvað nýtt og betra. 


bottom of page