Sjálfsþekking þín nær aðeins jafn langt og hugrekki þitt
- Sara Oddsdóttir
- Mar 30, 2020
- 2 min read
Updated: Aug 24, 2022
Af hverju? Jú, það þarf hugrekki til að horfast í augu við veikleika sína. Við höfum öll veikleika, allavega hef ég ekki hitt þann einstakling sem hefur ekki veikleika. Veikleiki þarf ekki endilega að vera eitthvað neikvætt. Maðurinn er breysk skepna, breyskleikinn gerir okkur mennsk... við erum ekki yfirnáttúrulegar- eða guðlegar verur. Það þýðir ekki að við föllum undantekningarlaust í freistni. Það þýðir að við erum mannleg. Við höfum hvatir, langanir, væntingar, tilfinningar o.s.frv. Og það má.
Öðru máli gegnir um hversu mikil áhrif það hefur á þig. Meðvitað eða ómeðvitað. Hefur þú markvisst skoðað hversu mikil áhrif hvatir, langanir, væntingar og tilfinningar þínar hafa á þær ákvarðanir sem þú tekur? Við tökum ákvarðanir allan daginn, bæði litlar og stórar, mikilvægar og eins ekki eins þýðingarmiklar.
HEFUR ÞÚ SETIÐ Í ÖRUGGU RÝMI OG SPEGLAÐ ÞESSA ÞÆTTI?
Mín reynsla hefur kennt mér að ómögulegt að gera þetta einn með sjálfum sér. Það sama gildir um manneskju sem er nákomin þér ef hún hefur hagsmuni af útkomunni. Sem eru flestir sem eru tengdir okkur tilfinningalega t.a.m. maki, foreldrar, systkini, börn og vinir.
Að horfast í augu við veikleika sína getur verið krefjandi ferli en að sama skapi mjög frelsandi. Það gefur þér tækifæri til að þekkja þig enn betur. Sjá hvað hefur áhrif á ákvarðanatöku þína, litar skoðanir, gildi, og hugmyndir um bæði sjálfan þig og aðra. Ef þú stendur í ströngu þessa dagana, álagið mikið eða finnur fyrir streitu er mikilvægt að geta tekið eins góðar ákvarðanir og mögulegt er. Ef þú vilt taka skynsamar ákvarðanir, byggðar á hlutlægum upplýsingum er mikilvægt að þekkja vel hvað hefur áhrif á huglæga afstöðu þína.
STYRKURINN FELST Í AÐ ÞEKKJA VEIKLEIKA SÍNA
Ef þú þekkir veikleika þína verða gæði ákvarðanna þinna meiri, hvort sem þær snerta persónulega eða faglega þætti í þínu lífi. Þetta skiptir enn meira máli ef þú ert undir álagi. Það er enginn undanskilinn veikleikum. Að halda öðru fram er sjálfsblekking og í raun rangt að kalla þetta veikleika því þessir huglægu þættir gera okkur mannleg.
FORTÍÐIN MÓTAR OKKUR SEM EINSTAKLINGA
Fyrrum sambönd og samskipti, fjölskylda og vinir, vinnustaðir og samstarfsfélagar... allir þessir þættir hafa áhrif á hver við erum í dag. Sem er dásamlegt. En ef þú hefur ekki skoðað markvisst hvað það er sem hefur áhrif á þína huglægu afstöðu og getu þá hvet ég þig til þess. Það er mjög hressandi. Það er ekkert rangt eða rétt í þessu. Við útskrifumst aldrei og ferðalagið heldur áfram.
Sjálfsþekking þín nær aðeins jafn langt og þú hefur horfst í augu við veikleika þína. Og til þess þarf hugrekki.
Knús Sara
Comments