top of page
watercolor-splash_edited.png
watercolor-splash.png

Skömmin er svo lík mér

Updated: Aug 24, 2022

Skömmin er fyrirbæri sem margir þekkja. Tilfinning sem er samferða mörgum í gegnum lífið. Hún getur hreiðrað um sig lengst niðri í maga og setið þar sem fastast, verður ráðandi í mörgum aðstæðum, einskonar einræðisherra. Svo óforskömmuð er hún, blessuð skömmin, að við getum skammast okkur fyrir nánast allt. Fyrir okkur sjálf, hvað við segjum, hvað við gerum og hvernig við erum. Við skömmumst okkur líka oft fyrir aðra, fyrir hvað aðrir gera og segja. Oft tengist skömmin þeim sem standa okkur næst, sér í lagi maka.


Tengir þú við að maki þinn segir eitthvað óviðeigandi í matarboði eða fermingarveislu, lætur ekki ná á sig þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir, segist vera löngu búinn að gera eitthvað sem er ógert eða segir ósatt frá og þér finnst þú verða taka undir? Hefur þér fundist hegðun maka þíns svo kjánaleg, asnaleg, óviðeigandi, tillitslaus, dónaleg, frek, smeðjuleg eða svo fáránleg að þér langar til að öskra. Hugsar með þér að „hvað ertu að pæla“og helst vilja hverfa ofan í jörðina? 


Ef svo er þá áttu hugsanlega eftir að átta þig á að þú ert líklega meðvirk eða meðvirkur með maka þínum. Skömmin er nefnilega algengur fylgifiskur meðvirkni sem birtist í ótal daglegum athöfnum. 


Þvílíkur skellur þegar þú áttar þig á að þú ert engu betri sjálf. Bara alveg núll. Að þú ert alveg jafn óviðeigandi og þessi aðili sem lætur þig finna fyrir þessari skömm. Ég geri mér fullvel grein fyrir að það er ekki það sem þú vilt heyra, að þú ert engu skárri en þessi beyglaða manneskja sem þú elskar. 


Málið er að um leið og þú dregur línu í sandinn um hvað sé viðeigandi eða óviðeigandi hegðun þá ert þú að reyna stjórna annarri manneskju. Þegar þú ákveður hvað sé rétt eða rangt í tilteknum aðstæðum þá ert þú ekki aðeins að þröngva þínum hugmyndum upp á aðra, heldur ertu líka að leika guð. Eða varstu beðin um álit? Auk þess getur þú rænt ástvin þinn af tilteknum þroska sem hann eða hún á eftir að öðlast. Líkt og barn þarf að læra að reima skóna sína sjálft, án þess að líkja maka þínum við barn. En þar með verður þú þroskaþjófur. 

Gefum okkur að maki þinn segi eitthvað óviðeigandi í matarboði, þú færð þú hnút í magann og skömmin heltekur þig. Þú spilar atvikið aftur og aftur í hausnum á þér allt matarboðið og verður heltekin af skömm í stað þess að njóta þín í góðra vina hópi. Einhverjum klukkutímum síðar ætlar þú svo að segja maka þínum til syndanna. Þið setjist út í bíl eftir matarboðið og maki þinn skilur ekkert um hvað þú ert að tala. Þetta er svona svipað eins og að segja við barnið þitt eftir að þú sækir það í leikskólann. Heyrðu, þú reimaðir skóna þína vitlaust í morgun, svona gerir maður ekki.


Hver skipaði þig dómara maka þíns? Allir eiga rétt á að ákveða fyrir sig hvað sé rétt eða rangt, viðeigandi eða óviðeigandi. Það er nefnilega ekkert víst að maki þinn hafi sömu hugmyndir um lífið og þú. Það sem einum finnst viðeigandi finnst öðrum ekki. Þannig getur þú borið einhverja skömm í maganum sem er ekki þín og varst ekki beðin um að bera. 


Þú getur aldrei tekið ábyrgð á hegðun annarra fullorðinna einstaklinga, en þú getur reynt að stjórna öðrum. Þú ferð ekki í fangelsi fyrir brot sem maki þinn framdi, eða færð sekt þegar mamma þín keyrir yfir á rauðu ljósi.

Eina manneskjan sem þú getur tekið ábyrgð á ert þú og þú hefur val. Val um að reyna stjórna aðstæðum eða ekki. Val um að skipa þig sem guð eða dómara í lífi maka þíns, þar sem reglubókin er í höfðinu á þér. Val um að segja satt frá þó maki þinn segi ósatt eða segja ekki neitt, án þess að bera skömm. Þú hefur líka val um að vera ekki í sambandi við þessa manneskju. Þetta er þitt val. En þú hefur ekki val um hvernig aðrir haga lífi sínu. Það að þú skulir taka það að þér er hugsanavilla. Þið eruð nefninlega ekki sama manneskjan.


Getur verið að þú sért að þröngva þínum hugmyndum um hvað sé rétt og rangt upp á einhvern annan? 

Hvaða máli skiptir þó einhver segi eitthvað ótrúlega kjánalegt. Af hverju getur þú ekki bara hlegið að því. Hvað gerist ef þú grípur ekki inn í aðstæður? Af hverju að bíða þar til veislan er búin og þið komin út í bíl til að segja einstaklingnum, sem þú segist elska af öllu hjarta, til syndanna. Hversu fallegt er það? Ertu sjálfskipaður dómari um hvað sé rétt eða rangt? Æðri maka þínum. Hver bað um þín skoðun? Getur verið að ef einhver annar aðili hefði sagt nákvæmlega sama hlutinn og þú skammast þín fyrir þá hefði það aldrei snert þig? Af hverju ertu í sambandi með þessari manneskju ef hún er svona rosalega óviðeigandi? Ef hún hagar sér svona langt út fyrir öll velsæmismörk að þú getur ekki annað en leiðrétt hana.


Skömm er hluti af meðvirkni sem á sér djúpar rætur í skort á samþykki, öryggi og trausti. Skömmin ferðast líka með samanburði. Þannig berðu þig eða maka þinn saman við aðra, með fyrirfram ákveðnar hugmyndir um hvað sé rétt eða rangt. Þar með reynir þú að hafa stjórn á aðstæðum og búa þér til falskt öryggi, öryggi sem þú fékkst kannski aldrei. 


Sem fullorðinn einstaklingur er bara ein manneskja sem þarf að samþykkja þig. Það ert þú sjálf eða sjálfur. Slepptu tökum og leyfðu öðrum að lifa.

bottom of page