top of page
watercolor-splash_edited.png
watercolor-splash.png

Sætur konfektmoli eða kynlíf?


Meðvitað eða ómeðvitað þá erum við stöðugt leitandi. Þessi leit okkar felst í að finna eitthvað til að uppfylla tiltekna þörf. En hver er þörfin? Gerir þú þér grein fyrir hverju þú leitar að akkúrat núna? Enn mikilvægara, hvaða þörf þú leitast við að sefa?

Alla daga leitumst við eftir að uppfylla okkar helstu grunnþarfir. Sem dæmi, þá uppfyllir matur, svefn, hreyfing og samskipti slíkar grunnþarfir. Og ekkert okkar getur lifað lengi án svefns, næringar, hreyfingarlaus í einveru, við myndum einfaldlega deyja. En hverju leitumst við eftir þegar grunnþörfum okkar hefur verið mætt? Hvað erum við að næra allar hinar mínútur dagsins? Hvað ert þú að næra með því að lesa þennan pistil? En þegar þú ert á samfélagsmiðlum eða í ræktinni?


KYNLÍF ER EKKI BARA TIL AÐ FJÖLGA MANNKYNINU

Hvað með kynlíf? Við höfum öll náttúrulega þörf til að tengjast öðrum og upplifa nánd. Kynlíf er þannig frumþörf sem felst ekki aðeins í “að fjölga mannkyninu” heldur líka til að tengjast annarri manneskju á einstakan hátt. Kynlíf getur þannig verið leið til að finna innilega, djúpa tengingu og sérstaka nánd við aðra manneskju, ólíkt öllu öðru.

Hvort sem það er líkamlegt eða huglægt ástand sem við sækjumst eftir. Þá erum við í stöðugri leit að einhverju sem mætir tiltekinni þörf eða löngun. Alla daga, alltaf. Og eftir að hungrið hefur verið sefað, þá kemur strax upp á yfirborðið önnur þörf sem þarf að sinna og við hefjum leitina að nýju. Sem er allt í lagi.




HÆGT ER AÐ NOTA MAT OG KYNLÍF Í ÖÐRUM TILGANGI

En rétt eins og matur og kynlíf næra grunnþarfir okkar, þá er líka hægt að neyta þeirra í öðrum tilgangi. Það er til að friða margskonar tilfinningar. Ekki það að tilfinningin, sem þú meðvitað eða ómeðvitað vilt ekki sitja með, hverfi bara. Alls ekki. Heldur er það frekar að huglæga ástandið sem þú ert í fyrir, dofnar aðeins þegar eitthvað sterkara tekur yfir, fyllir skilningarvitin. Hvort sem það er sætur konfektmoli eða kynlíf, þá fylgir því ákveðið hugarástand, unun eða fjarvera, sem deyfir tilfinningu sem fyrir var. Allavega rétt á meðan þú nýtur þess er varð fyrir valinu. Ekki rétt?

ERU EINHVER FALIN SKILABOÐ Í PAKKANUM?

En hversu oft staldrar þú við og skoðar hvaða þörf þú leitast við að sefa? Og hvað þú velur til að sefa þessa þörf? Er maturinn sem þú borðar eingöngu til að næra líkamann? En jólagjöfin sem þú ætlar að gefa? Eru einhver falin skilaboð í pakkanum? Hvað með áfengi, samfélagsmiðla, kynlíf, ræktina, sambönd eða vinnuna? Þjóna öll þessi atriðið tilgangi sínum? Eru forsendurnar fyrir þínu vali, þær sömu og þú lagðir upp með? Hefur val þitt afleiðingar sem þú sást ekki fyrir? Eins og aðferðirnar eru margar eru forsendurnar ólíkar en markmiðið alltaf það sama. Við erum öll leitandi að einhverju til að sefa eitthvað. Af hverju drekkur þú áfengi? Til að slaka betur á, skemmta þér, vera hress eða njóta matarins betur? Til að svala þorsta? Hvaða þörf varst þú að mæta síðast þegar þú drakkst áfengi?




FINNST ÞÉR GOTT ÞEGAR FÓLK SMELLIR EINU LIKE Á MYNDINA ÞÍNA?

Og í hvaða tilgangi notar þú samfélagsmiðla? Til að tengjast fólki, vera sýnilegur eða fá samþykki? Finnst þér gott þegar fólk smellir einu like á myndina þína? Mér finnst það. Ég upplifi vellíðan þegar þú smellir einu hjarta á pistil eins og þennan. Fæ einhverskonar staðfestingu á að fólk tengi við skrif mín. Málið er að við erum öll að leitast eftir að vera séð og að sjá aðra. Og ég er ekki að segja að það sé eitthvað rangt við að nota áfengi eða samfélagsmiðla. Heldur er spurningin mín sú, á hvaða forsendum þú gerir það? Helgar tilgangurinn meðalið?


TELUR ÞÚ ÞIG BETRI BÓLFÉLAGA EF ÞÚ ERT Í GÓÐU LÍKAMLEGU FORMI?

Við erum leitandi af mörgum ólíkum ástæðum. Flestir fara í ræktina til að sækja líkamlega eða andlega vellíðan. En getur verið að eitthvað fleira búi að baki? Kannski ákveðið líkamlegt atgervi í augum þeirra sem þú vilt spegla þig í eða til að endurspegla ákveðna ímynd út á við? Telur þú þig betri bólfélaga ef þú ert í góðu líkamlegu formi? Eða hefur það frekar eitthvað með sjálfsmyndina að gera? Hversu heiðarlegt svar ert þú fær um veita þér?




LÍÐUR ÞÉR VEL ÞEGAR EINHVERJUM LANGAR Í ÞIG?

Eins og kynlíf er einstök leið til að svala þörf fyrir nánd og tengingu við aðra manneskju. Þá getur kynlíf líka verið notað í öðrum tilgangi. Eins og að uppfylla þörf fyrir samþykki, aðdáun, að tilheyra eða finnast maður vera eftirsóknarverður. Tilfinningin þegar einhvern langar í mann er alveg heilbrigð og eðlileg. Svo lengi sem þú ert í meðvitund um hvað þú sækist eftir. VIÐ ERUM STÖÐUGT, ÁN UNDANTEKNINGA, Í LEIT AÐ EINHVERJU TIL AÐ SEFA EITTHVAÐ. Ef við veitum þessari leit okkar smá athygli. Má sjá að við erum stöðugt, án undantekninga, líka ég, í leit að einhverju til að sefa eitthvað. En ef við stöldrum aldrei við til að skoða nánar hverju við erum í raun og veru að reyna fullnægja. Hvernig getum við þá tekið góðar ákvarðanir í fullri vitund? Því þetta augnarblik, þegar þig langar í eitthvað sætt eða súrt. Og þú stendur upp og opnar ísskápinn, Instagram eða Facebook, er akkúrat tímapunkturinn sem þú leitar að breyttu ástandi.




Því ef þig skortir ekkert þá er engin ástæða að sækja nokkuð

Og næst þegar þú opnar ísskápinn, Instagram eða konfekt-kassann, getur þú séð að þú ert í raun að sækja eitthvað sem þér finnst vanta. Því ef þig skortir ekkert þá er engin ástæða að sækja nokkuð. Er það? Við erum sífellt leitandi eða að sækja eitthvað til að breyta einhverju innra eða ytra ástandi. Meðvitað eða ómeðvitað, án undantekninga. Alltaf að leitast eftir að uppfylla einhverja þörf. Og á sama augnarbliki og þeirri þörf hefur verið mætt, þá kemur önnur upp á yfirborðið. Þetta er ekki spurning um að dæma sig fyrir sínar ákvarðanir heldur að grípa sig á leiðinni og vera í vitund.

Því um leið og þú veitir leitinni athygli. Staldrar aðeins við, gefur þú þér möguleikann til að sjá hvaða þörf þú leitast eftir að sefa. Og um leið gefur þú þér tækifæri til að velja í fullri vitund hvernig þú ætlar að mæta þessari þörf.

Gleðilega hátíð kæru vinir og takk fyrir einstakt ár Myndir: Svenni H. & Davíð Oddgeirs

bottom of page